Íslandssaga í greinum
Skrá um greinar um íslenska sögu og sagnfræði, birtar í tímaritum og öðrum greinasöfnum
Ritstjóri Guðmundur Jónsson · Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands

Kynning

Umfang

Í ritaskrána eru skráðar greinar um íslenska sögu sem hafa birst í tímaritum, íslenskum og útlendum. Þar eru líka margar greinar úr öðrum greinasöfnum, svo sem afmælisritum fræðimanna, án þess að þau hafi verið kembd jafnrækilega og tímaritin. Fleira er tekið með en telst til sagnfræði í þrengsta skilningi, svo sem mestöll félagsvísindi sem fjalla um íslenskan veruleika, einnig bókmenntasaga og önnur listasaga. Smæstu fróðleiksmolum hefur verið sleppt og að jafnaði ekki skráð styttri rit en 4 bls. löng. Skráin nær yfir greinar frá upphafi og fram til 2005 en greinar úr tímaritunum Andvara og Sögu ná til ársins 2019. Í skránni eru tæplega 14.000 færslur, en margar þeirra eru skráðar í tvo eða fleiri efnisflokka. Elstu greinarnar í skránni, eftir Norðmanninn Peder Claussøn, komu út í bók árið 1632.

Flokkun

Allar greinarnar eru flokkaðar á tvennan hátt:

  1. Annars vegar er þeim skipað í 89 efnisflokka sem eru valdir sérstaklega með þarfir sagnfræðivinnu í huga. Margar greinar flokkast í tvo eða fleiri flokka.
  2. Hins vegar er þeim skipað í átta tímaflokka út frá algengri tímabilaskiptingu Íslandssögunnar:
    1. Efni sem ekki er hægt að flokka til ákveðins tímabils
    2. Landnáms- og þjóðveldisöld, til 1264
    3. Síðmiðaldir, um 1264-1550
    4. Rétttrúnaðartími, um 1550-1700
    5. Upplýsingartími, um 1700-1830
    6. Tímabil sjálfstæðisbaráttu, um 1830-1904
    7. Heimastjórnartími og konungsríki, um 1904-1940
    8. Styrjaldarár og lýðveldistími, síðan um 1940

Tímaflokkun er sýnd með bókstaf eða bókstöfum á vinstri spássíu skrárinnar. Nái rit yfir fleiri en einn tímaflokk fær það fleiri bókstafi.

Saga verksins

Söfnun efnis í skrána hófst árið 1978, áður en tölvutækni þekktist yfirleitt í ritaskráningu, og var markmiðið að gefa út prentað rit með skrá um það sem hefði verið skrifað fræðilega um íslenska sögu og önnur íslensk mannvísindi. Eftir það jókst útgáfa rita um þessi efni verulega, og erfitt reyndist að útvega fé til að halda meira en svo í horfinu með það sem bættist við frá ári til árs. Þá var ákveðið að láta bækurnar mæta afgangi af því að þær er auðveldara að finna í bókasöfnum en greinar.

Gunnar Karlsson prófessor skipulagði verkið í upphafi og stýrði því fram til 2015. Guðmundur Jónsson prófessor annaðist yfirfærslu skrárinnar á stafrænt form árið 2004 og tók við ritstjórn 2015. Framan af greiddi Sagnfræðistofnun laun aðstoðarmanna hans. Árangurinn af fyrstu tveimur-þremur árunum var ljósritað safn seðla, Íslandssaga í íslenskum tímaritum I-II, sem var búið til árið 1980. Þetta safn var lengi til á nokkrum bókasöfnum og kom mörgum að gagni, þótt ófullkomið væri.

Árið 1981 sá stjórn Sagnfræðistofnunar sér ekki lengur fært að styrkja þetta verk, svo að það lenti á framfæri Vísindasjóðs og fékk styrki þaðan árlega 1981-84. Þá mun hafa tíðkast að takmarka styrki sjóðsins við þrjú ár, en þegar þau voru liðin var Rannsóknasjóður Háskóla Íslands kominn á laggirnar, og hefur hann verið drýgstur að styrkja verkið síðan. Stundum hefur þó verið synjað gersamlega um styrki úr öllum sjóðum, eða ritstjóri þóst hafa brýnni þörf fyrir styrki til annarra verka, og vinna við skrána legið niðri um árabil af þeim sökum.

Aðstoðarmenn ritstjóra hafa flestir verið sagnfræðinemar og síðar flestir vel metnir sagnfræðingar. En nokkrir nemar í bókasafnsfræði, og síðar ekki miður metnir bókasafnsfræðingar, hafa líka komið að verkinu. Eftirtalið fólk vann að gerð skrárinnar fram til 2006:

Auk þessa fólks hafa margir veitt ráð og leiðbeiningar af ýmsu tagi og nemendur annast innsetningu gagna. Færir ritstjóri þessu fólki öllu bestu þakkir sínar fyrir gott samstarf.

Forritun og smíði vefsins annaðist Örvar H. Kárason.

Árið 2010 hannaði RHÍ innsetningarviðmót fyrir ritaskrána og hefur séð um viðhald og uppfærslur forritanna síðan. Árið 2015 endurbætti Róbert Theodórsson, lögfræðinemi, viðmótið og vann að uppfærslu ritaskrárinnar. Greinar birtar í Sögu, tímariti Sögufélags, og Andvara fram til ársins 2019 hafa verið færðar inn í gagnagrunninn.

Fyrirvarar

Skráin hefur örugglega sínar villur og vantanir, ekki síður en önnur verk af þessu tagi. Notendur sem finna þar eitthvað rangt eða taka eftir að færslur vanti gera aðstandendum skrárinnar og öllum notendum góðan greiða með því að láta vita af því. Tölvubréf með leiðréttingum og viðaukum má senda á póstfangið soguslodir@hi.is.

Til baka í leit ...

© 2004-2006 Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands, Nýja-Garði, 101 Reykjavík